Victoría kjörinn íþróttamaður Sandgerðis 2016

Home/Frettir/Victoría kjörinn íþróttamaður Sandgerðis 2016

Íþróttamaður Sandgerðis 2016 er Victoría Ósk Anítudóttir taekwondokona en kjörinu var lýst sunnudaginn 5. mars í Samkomuhúsinu í Sandgerði.

Victoría er í dag einn besti kvenkeppandi landsins í unglingaflokkum og er í unglingalandsliði Íslands. Victoría er góður og einbeittur íþróttamaður sem hefur náð góðum árangri á síðustu árum en hún hefur stundað íþróttina frá unga aldri. Hún var valin taekwondo kona Keflavíkur á síðasta ári. Victoría æfir með afrekshóp félagins og sýndi miklar bætingar á síðasta ári þar sem hún vann til 7 gullverðlauna og einna brons verðlauna. Victoría náði góðum árangri þegar hún sigraði opna skoska meistaramótið í haust en þar keppti hún við sterka keppendur í mjög spennandi bardögum. Hún hefur verið aðstoðarþjálfari og dómari og hún er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Victoría varð Íslandsmeistari 2016 og var ósigruð í bardaga á árinu. Hún varð; Íslandsmeistari í liðakeppni, bikarmeistari í liðakeppni, var valinn besti keppandi á bikarmóti, hún vann þar að auki tvenn bikarmót í bardaga og vann þrenn gull í tækni, allt með yfirburðum.

Eftirfarandi íþróttamenn hlutu viðurkenningu fyrir góðan árangur 2016 og voru einnig tilnefndir til kjörsins.

Ástvaldur Ragnar Bjarnason – boccia

Birgir Þór Kristinsson – motorsport

Gestur Leó Guðjónsson – körfuknattleikur

Hafsteinn Rúnar Helgason – knattspyrna

Pétur Þór Jaidee – golf

Við sama tækifæri var afhent viðurkenning frístunda-, forvarna- og jafnréttisráðs fyrir störf að íþrótta- og æskulýðsmálum í Sandgerði og var það Guðjón Ólafssons sem hlaut viðurkenninguna. Guðjón kom mikið að uppbyggingu Knattspyrnufélagsins Reynis. Hann byrjaði að spila með Reynisliðinu árið 1964 aðeins 16 ára gamall og spilaði með meistaraflokk liðsins og þjálfaði yngri flokka samhliða í um 20 ár, í þá daga þekktist ekki að greiða þjálfurum fyrir vinnu sína því var það allt gert í sjálfboðavinnu. Yngri flokkarnir náðu frábærum árangri undir hans stjórn og margir valdir í landsliðshópa á þeim tíma. Seinna þjálfði hann 2. flokk hjá Reyni og skilaði þeim upp í meistaraflokk. Guðjón sat í stjórn knattspyrnudeildar og fjáröflunarnefndum hjá Reyni og tók einnig virkan þátt sem formaður íþrótta- og tómstundaráðs við uppbyggingu íþróttasvæðins á Reynisvellinum eins og við þekkjum það í dag. Guðjón er sagður hafa verið afskaplega þægilegur góður liðsfélagi og sem þjálfari kom hann fram við krakkana eins og jafningja og var mjög hvetjandi mikill og peppari fyrir yngri iðkendur.