Saga Sandgerðishafnar

Home/Saga Sandgerðishafnar

Saga Sandgerðishafnar
Öldum saman var stunduð sjósókn frá Sandgerði á opnum bátum, enda stutt á fengsæl mið. Með tilkomu vélbátanna í byrjun síðustu aldar, tekur byggðin við Sandgerðisvíkina að stækka. Vegna legu víkurinnar og bæjarskerseyrarinnar, var þar skjólgott afdrep fyrir vélbátana sem gengu til fiskveiða.

Upphaf hafnarframkvæmda í Sandgerði má rekja til umsvifa Ísland – Færeyjarfélags árið 1908. Félagið réð þá Matthías Þórðarson til þess að koma upp útgerðarstöð í Sandgerði. Á svonefndum “Hamri” voru reistar miklar byggingar og þar fyrir framan var byggð steinbryggja. Í höfninni var einnig komið fyrir 250 faðma langri keðju með 15 bólfærum. Útgerð félagsins misheppnaðist algjörlega. Mannvirkin stóðu hins vegar áfram og nýttust vel þeim innlendu aðilum sem komu í kjölfarið til Sandgerðis.
 
Á árunum 1913 – 1914 hófst útgerð Akurnesinga í Sandgerði. Stóð hún í miklum blóma næstu 14 árin. Þeir Loftur Loftsson og Þórður Ásmundsson keyptu mannvirkin á Hamrinum og stuttu seinna kom Haraldur Böðvarsson sér upp aðstöðu á “Snoppunni”. Haraldur lét þar reisa mikil mannvirki, m.a. steinbryggju. Í hönd fór mikill uppgangstími í Sandgerði. Akurnesingarnir gerðu út fjölda vélbáta, auk þess sem fjölmargir aðkomubátar voru í viðskiptum við þá.

Á árunum 1924-1928 dróst útgerð Akurnesinganna mikið saman. Árið 1941 hætti Haraldur Böðvarsson rekstri í Sandgerði og seldi þeim félögum Sveini og Ólafi Jónssyni fyrirtæki sitt. Stofnuðu þeir hlutafélagið Miðnes.
Þá stofnuðu ýmsir útgerðarmenn, aðallega úr Garðinum, hlutafélagið Garð sem keypti eignir Lofts. Þegar Garður h/f hætti störfum árið 1959, keypti Guðmundur Jónsson frá Rafnkelsstöðum eignirnar.

Allt fram til ársins 1946 var notast við bryggjurnar tvær sem byggðar voru snemma á öldinni. Það ár keypti Miðneshreppur bryggjurnar og fljótlega var hafist handa við endurbætur á þeim. Bryggja á Hamrinum  var lengd í áföngum.
Þó að Bæjarskerseyrin veitti höfninni nokkurt skjól, setti inn í hana mikinn sjó þegar hásjávað var. Sérstaklega voru vestanáttir slæmar. Því var hafist handa við að loka höfninni árin 1974-1975 fyrir úthafsöldunni með grjótgörðum.
Síðustu áratugi hefur verið unnið að því að auka viðlegu- og löndunarrými, dýpka höfnina og styrkja varnargarða.
 
Stöðugar hafnarbætur síðustu áratugina hafa leitt til þess að nú er gott skjól í höfninni í öllum áttum. Sandgerðishöfn liggur best Faxaflóahafna við hinum fengsælu fiskimiðum í Miðnessjó, á Eldeyjarsvæðinu og allt vestur undir Snæfellsnes. Þetta ásamt góðri þjónustu við höfnina hefur gert hana að einni vinsælustu höfn á landinu.