Nemendur í Gerðaskóla og Grunnskóla Sandgerðis velja Heiðarbyggð og Suðurbyggð til síðari umferðar

Home/Frettir/Nemendur í Gerðaskóla og Grunnskóla Sandgerðis velja Heiðarbyggð og Suðurbyggð til síðari umferðar
  • Grunnskólinn í Sandgerði

Við val á nafni á sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Garðs er lögð mikil áhersla á þátttöku ungs fólks, enda er verið að velja nafn á sveitarfélagið þeirra til framtíðar. Sérstaklega var kallað eftir hugmyndum nemenda í grunnskólum að nöfnum og barst 291 tillaga frá þeim.

Í atkvæðagreiðslu um nýtt nafn hafa 17 ára og eldri atkvæðisrétt, þ.e. allir þeir sem fæddir eru 2001 eða fyrr. Þannig geta allir á framhaldsskólaaldri tekið þátt í almennu atkvæðagreiðslunni. Samhliða var ákveðið að nemendur í grunnskólum myndu taka þátt í skuggaatkvæðagreiðslu. Nemendur í báðum grunnskólum hafa áður tekið þátt í slíkum atkvæðagreiðslum sem er hluti af þjálfun þeirra til þátttöku í lýðræðissamfélagi. Kennarar í Sandgerðisskóla og Gerðaskóla eru framarlega í upplýsingatækni og var atkvæðagreiðslan rafræn, rétt eins og hjá fullorðna fólkinu.

Fyrri umferð atkvæðagreiðslu hjá nemendum er lokið og hafa þau valið Heiðarbyggð og Suðurbyggð til síðari umferðar. Nafnið Heiðarbyggð fékk rúmlega 33% greiddra atkvæða og Suðurbyggð tæplega 27%. Síðari umferð fer fram í næstu viku og mun þá liggja fyrir hvaða nafn nemendur velja á nýja sveitarfélagið sitt. Alls greiddu 322 nemendur atkvæði, en nemendur í grunnskólunum eru alls 470. Kosningaþátttaka var því 68,5%