Gjaldskrá Sandgerðishafnar 2013

Home/Gjaldskrá Sandgerðishafnar 2013

1. grein: Almenn ákvæði.

1.1 Um lagaheimild og tilgang

Gjaldskrá þessi fyrir Sandgerðishöfn er sett skv. heimild í 17. grein hafnalaga nr. 61/2003. Gjaldskráin á að vera við það miðuð að Sandgerðishöfn geti haft nægar tekjur til þess að standa undir rekstri hafnarinnar eins og lýst er í 5. tölulið 3. gr. hafnalaga.

1.2 Um stærðarviðmiðun

Við ákvörðun hafnargjalda samkvæmt stærð skipa skal miða við brúttótonnatölu skipa samkvæmt alþjóðlegu mælibréfi, sem gefið er út eftir ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar um mælingu skipa frá 1969 og lögum um skipamælingar nr. 50/1970. Af öllum skipum skal greiða hafnargjöld til hafnarsjóðs ef þau koma inn á athafnasvæði hafnarinnar og njóta þjónustu þar.

2. grein: Skipagjöld.

2.1 Lestagjöld

Af öllum skipum skal greiða lestagjald kr. 12,45 pr. br.tonn

en þó ekki af fiskiskipum stærri en 100 br.tonn oftar en tvisvar í mánuði.

2.2 Bryggjugjöld.

Af öllum skipum sem leggjast að bryggju skal greiða kr. 6,33 pr. br.tonn

pr. dag, þ.e. fyrir hvern byrjaðan dag sem skipið er í höfn.

Fiskiskip greiða þetta gjald ekki oftar en 26 daga í mánuði.

Gjald fyrir legu við flotbryggju er kr/dag 441,- eða fast gjald kr/mán 11.246,-

Gjald fyrir legu við flotbryggju í einkaeign er kr/dag 331,-

eða fast gjald kr/mán 8.600.- Skipagjöld eru innifalin í flotbryggjugjaldi. Skip sem liggja í höfn og eru ekki í rekstri greiða fullt bryggjugjald fyrir hvern legudag.

Skip sem legið hefur lengur en einn mánuð í höfn er skip sem ekki telst vera í rekstri.

3. grein: Vörugjöld.

3.1 Almenn ákvæði

Vörugjald skal greiða af öllum vörum sem losaðar eru úr skipi á land eða lestaðar eru í skip. Sama gildir um vörur sem fluttar eru milli skipa innan marka hafnarinnar, þó með þeim undantekningum er síðar getur. Fyrir vörur sem samkvæmt farmskrá skips eru ákveðnar til annarrar hafnar, skal aðeins greitt vörugjald ef vörurnar eru losaðar úr skipi og fluttar landleiðina til skráðs áfangastaðar. Undanþegnar vörugjaldi eru vörur sem látnar eru á land um stundarsakir vegna þess að þær eru fyrir öðrum vörum sem losa þarf og/eða vörur sem þarf að losa úr skipi um stundarsakir vegna viðgerða á skipi. Hér er um að ræða vörur sem fara aftur um borð í skip.

3.2 Undanþágur

Eftirfarandi vörur eru algjörlega undanþegnar vörugjaldi:

Umbúðir, s.s. fiskikör, tómir gámar ofl. sem eru endursendar. Olía, vistir og aðrar nauðsynjar skipa til eigin notkunar. Almennar póstsendingar og farangur ferðamanna. Sorp og annar úrgangur sem fluttur er til eyðingar.

3.3 Um útreikning á vörugjaldi

Vörugjald skal reikna eftir þyngd vöru, með umbúðum og af hverri sendingu sérstaklega. Fara skal eftir farmskrá skips við útreikning vörugjalds. Skipstjóra eða útgerð skips er skylt að láta Sandgerðishöfn í té afrit af farmskrá. Sé engri farmskrá til að dreifa skal skipstjóri gefa drengskaparvottorð um vörumagn sem lestað hefur verið eða losað úr skipi hans. Þyki yfirmanni hafnarinnar ástæða til getur hann hvenær sem er látið ákveða vörumagnið á þann hátt sem hann telur réttast. Reynist vörumagnið vera meira en upp er gefið greiðir farmeigandi kostnaðinn. Séu fleiri en ein vörutegund í sendingu ósundurliðaðar skal reikna vörugjaldið eftir þeirri tegund sem er í hæsta gjaldflokki. Sjá nánar grein 5.1 í gjaldskrá þessari um framkvæmd á innheimtu vörugjalda og ábyrgð útgerðar flutningaskipa. Vörur skal flokka til vörugjalds eftir því sem vörugjaldskrá tiltekur og gjaldið greiðist eins og þar segir. Vörugjald af sjávarafla reiknast af verðmæti. (sjá nánari útskýringar í 5. fl. lið 3.4 hér í vörugjaldskránni). Lágmarksgjald í öllum flokkum vörugjalds er kr. 314.- fyrir hvert tonn.

3.4 Vörugjaldskrá.

1. fl.: Gjald kr. 314,- per. tonn:

Dýrafóður s.s. hakkaður og frystur fiskúrgangur.

2. fl.: Gjald kr.392,- pr. tonn:

Bensín, brennsluolíur, kol, laust salt, vikur, kísilgúr, þörungamjöl, sement, áburður og úrgangur sem fluttur er til endurvinnslu.

3. fl.: Gjald kr. 524,- pr. tonn:

Lýsi og fiskimjöl, þungavarningur, svo sem sekkjavörur, óunnið járn og stál, útgerðarvörur, smurningsolíur, sjávarafurðir, landbúnaðarafurðir, hráefni til iðnaðar og byggingaframkvæmda, pökkuð og niðursoðin matvæli, drykkjarvörur og ávextir.

4. fl.: Gjald kr. 1.461,- pr. tonn:

Aðrar vörur, sem ekki eru tilgreindar í 1. – 3. fl.

Af flutningi vinnutækja innanlands skal veita allt að 50% afslátt. Vörugjald greiðist ekki af bifreiðum ferðamanna, enda ferðast eigendur með sama skipi.

5. fl.: Gjald 1,60% af aflaverðmæti.

Sjávarafli lagður á land eða í skip á hafnarsvæðinu til vinnslu eða brottflutnings, þ.m.t. fiskur og seiði úr eldiskvíum. Gjaldið reiknast af heildarverðmæti aflans. Gjald af frystum afla frystitogara og eldisfiski reiknast af helmingi heildarverðmætis. Gjald af saltfiski sem landað er, reiknast miðað við tvöfalda þyngd. Gjald af sjávarafla sem fluttur er erlendis með gámum og seldur þar, reiknast af söluverðmæti aflans. Kaupanda aflans ber að afhenda Sandgerðishöfn skýrslu um keyptan afla mánaðarlega, t.d. afrit af sundurliðaðri aflaskýrslu til Fiskistofu Íslands eða skv. samkomulagi.

Aflagjald reiknast að lágmarki miðað við útgefið fiskverð Verðlagsstofu skiptaverðs eins og það er á þeim tíma sem afla er landað. Þetta á við hvort sem um er að ræða óskylda eða skylda viðskiptaaðila sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Aflagjaldið fellur í gjalddaga um leið og afla er landað. Kaupandi aflans innheimtir gjaldið hjá seljanda og er ábyrgur fyrir því til hafnarsjóðs þótt hann vanræki innheimtu þess. Standa ber skil á greiðslu aflagjalds eigi sjaldnar en mánaðarlega.

4. grein: Þjónustugjöld

4.1 Gjöld vegna þjónustu við komur og brottfarir skipa

Flutningur hafnsögumanns, fast gjald er kr. 17.089,-.

Fyrir leiðsögu frá ytri höfn að bryggju er fast gjald kr. 5.733,-

Að auki greiðast kr. 5,15 fyrir hvert br. tonn.

Fyrir leiðsögu frá höfn til ytri hafnar og flutning hafnsögumanns til baka greiðist sama gjald. Vegna þjónustu dráttarbáts er gjaldtaka samkvæmt taxta þess aðila sem á dráttarbátinn. Þegar dráttarbátur flytur hafnsögumann og aðstoðar einnig skipið, fellur fast gjald fyrir flutning hafnsögumanns niður.

Festargjald fyrir hverja afgreiðslu pr. mann í dv. kr. 4.851,-

Festargjald fyrir hverja afgreiðslu pr. mann í yv. kr. 8.732,-

Sömu gjöld ber að greiða hlutfallslega fyrir hvern mann sem bætist við vegna landfesta.

4.2 Farþegagjald.

Farþegagjald er innheimt við komu og brottför farþega með skipum um Sandgerðishöfn.

Fyrir hvern farþega eldri en 12 ára með skipi greiðist kr. 176,-

Fyrir hvern farþega 12 ára og yngra með skipi greiðist kr. 88,-

4.3 Gjöld fyrir hafnarvernd/öryggisgæslu

Með vísan til 10. gr. laga um siglingavernd nr. 50/2004 um gjaldtöku.

Öryggisgjald: Fast gjald fyrir hverja komu skips kr. 27.122,- .

Hafnarvernd/öryggisgæsla:

Fast gjald pr. klst. í dv. kr. 2.426,- fyrir hvern öryggisvörð.

Fast gjald pr. klst. í yv. kr. 4.366,- fyrir hvern öryggisvörð.

4.4 Gjöld fyrir vatn, raforku og aðstöðu fyrir eldsneytisafgreiðslu

Kalt vatn pr. m3 kr. 254,-

Heitt vatn pr. m3 kr. 485,-

Kalt vatn til minni báta, 10 br.tonn kr. 254,- pr. löndun.

Fyrir hverja kwst. raforku kr. 14,00.

Lágmark fyrir skip yfir 100 br.tonn er 200 kwst.

Fast tengigjald í dv. kr. 2.426,-

Fast tengigjald í yv. kr. 4.366,-

Gjald fyrir aðstöðu vegna eldsneytisafgreiðslu er kr/ár 116.424,-

4.5 Gjöld fyrir notkun löndunarkrana

Kranagjald, fast gjald pr. löndun allt að 2 tonn kr. 827,-

Kranagjald fyrir hvert byrjað tonn umfram 2 tonn kr. 276,-

Skilagjald lykla löndunarkrana kr. 2.756,-

4.6 Gjöld fyrir vigtun, skráningu sjávarafla og þjónustu í yfirvinnu

Almenn vigtun kr/tonn 149,-

Skráningargjald fyrir skráningu í Gafl kr/tonn 149,-

Lægsta gjald fyrir vigtun sjávarafla kr/vigtun 794,-

Lægsta gjald fyrir vigtun vöru/tækja kr/vigtun 1.213,-

Vigtar- og skráningargjald Fiskmarkað kr/tonn 176.-

Fyrir vigtun sjávarafla á tímabilinu frá kl. 17:00 til kl. 21:00 og kl. 06:00 til kl. 08:00 á virkum dögum greiðist sérstakt yfirvinnugjald sem er kr. 4.366,- pr. löndun.

Fyrir vigtun sjávarafla í yfirvinnu utan þess tíma sem að framan greinir, greiðir viðskiptavinur það kostnaðarhlutfall sem höfnin verður að standa skil á vegna launasamninga. Ef fleiri en einn aðili fær þjónustu á sama tíma í yfirvinnu, skiptist kostnaður á milli aðila.

Sérstakt yfirvinnuútkall er að lágmarki 4 klst. á kr/klst. 4.366,-

4.7 Gjöld fyrir sorphirðu og sorpeyðingu

Skip minni en 10 br.tonn kr/mán. 992,-

Skip 10 – 100 br.tonn kr/mán. 3.197,-

Skip 100 – 300 br.tonn kr/mán. 5.402,-

Skip 300 – 600 tonn kr/skipti 3.197,-

Skip stærri en 600 tonn kr/skipti 4.300,-

Framangreind gjöld eru fyrir venjulega sorplosun og eyðingu. Höfnin getur útvegað gáma sérstaklega fyrir losun á miklum úrgangi s.s. vegna viðgerða í skipum o.þ.h.

Fyrir móttöku og eyðingu á vírum, netum og öðrum veiðafæraúrgangi…kr/kg 33,60

4.8 Lóðagjöld, geymslugjöld og gjald fyrir notkun bátarennu.

Geymsla hvers kyns muna eða tækja er háð leyfi hafnaryfirvalda. Gjald fyrir geymslu á ófrágengnum svæðum hafnarinnar er kr. 331,- pr. m3 pr.mán. eða skv. samkomulagi.

Geymsla gáma á opnum svæðum er kr. 4.366,- pr. mánuð.

Geymslugjald fyrir bátakerru er kr.1.654,- pr. byrjaðan mánuð.

Geymsla á veiðafærum og búnaði er frí í 5 daga að fengnu leyfi

en eftir þann tíma reiknast geymslugjald kr. 2.095,- pr. dag.

Uppistöðugjald báta undir 20 br. tonn á hafnarsvæðinu er kr. 551,- pr. dag,

en að fjórum vikum liðnum tvöfaldast gjaldið.

Notkun á bátarennu kr/skipti 7.166,-

5. grein: Um innheimtu og greiðslu hafnargjalda.

5.1 Um framkvæmd innheimtu og ábyrgð útgerðar flutningaskipa

Innheimta allra hafnargjalda er framkvæmd af innheimtudeild Sandgerðisbæjar og gjöldin greidd til skrifstofu bæjarins. Ef gjöldin eru ekki greidd á réttum gjalddögum er heimilt að reikna hæstu lögleyfðu dráttarvexti á skuldina skv. 3. kafla laga nr. 38/2001. Útgerð og eigandi flutningaskips bera ábyrgð á greiðslu gjalda þeirra sem greiða ber til Sandgerðishafnar vegna viðkomu skipsins. Skipstjóra er skylt við komu til hafnar að gefa hafnaryfirvöldum allar upplýsingar um skipið í samræmi við ákvæði 5. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 326/2004 um hafnamál og afhenda Sandgerðishöfn þjóðernis- og skrásetningarskírteini.

Með vísan til 3. greinar í þessari gjaldskrá greiðist vörugjald af öllum vörum sem eru losaðar eða lestaðar í/úr flutningaskipi innan marka hafnarinnar. Vörugjaldið skuldfærist á útgerð skips áður en skipið hefur siglingu að nýju nema um annað sé sérstaklega samið. Vörugjald er á ábyrgð farmflytjanda og er afhending vöru án greiðslu vörugjalds á hans ábyrgð. Ef vörur eru fluttar úr einu skipi í annað greiðir sá vörugjaldið sem losar vöruna úr sínu skipi.

5.2 Um tryggingar fyrir greiðslu vörugjalda

Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari má ávallt tryggja með aðför að undangengnum dómi. Skipagjöldin eru tryggð með lögveði í viðkomandi skipi eða vátryggingarfé. Gengur það veð í tvö ár fyrir samningsveðskuldum sbr. ákvæði 2. mgr. 21. gr. hafnalaga nr. 61/2003. Sandgerðishöfn er heimilt að krefjast frekari trygginga fyrir greiðslu áfallinna gjalda ef ástæða þykir til.

5.3 Um innheimtu virðisaukaskatts

Öll gjöld í gjaldskrá þessari eru án virðisaukaskatts. Sandgerðishöfn er skylt að innheimta viðrisaukaskatt af öllum gjöldum í gjaldskrá þessari, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

6. grein: Gildistaka.

6.1 Samþykkt gjaldskrár

Gjaldskrá þessi fyrir Sandgerðishöfn er gerð skv. hafnalögum nr. 61/2003 og reglugerð um hafnamál nr. 326/2004. Gjaldskráin er samþykkt í atvinnu- og hafnarráði þann 24.10. 2012. Gjaldskráin öðlast gildi þann 1. janúar 2013 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá fyrir Sandgerðishöfn frá 1. janúar 2012.

Sandgerðisbæ 1. janúar 2013

Sigrún Árnadóttir hafnarstjóri.

Staðfest á 328. fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar 12. desember 2012.

Tekur gildi 1. janúar 2013.