Eldri borgarar

Home/Eldri borgarar
Miðhús - Þjónustumiðstöð eldri borgara

Miðhús – Þjónustumiðstöð eldri borgara

Á vegum félagsþjónustunnar starfar stýrihópur um málefni aldraðra, sem fundar reglulega. Hugmyndin með þessum fundum er að samræma þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu. Stýrihópinn skipa félagsmálastjóri, starfsmaður í félagslegri heimaþjónustu, deildarstjóri Miðhúsa og hjúkrunarfræðingur í heimahjúkrun. Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög gagnlegt og er góður sameiginlegur vettvangur fyrir þá sem að málaflokknum koma.

Sandgerðisbær á 9 íbúðir sem falla undir félagslegt húsnæði og 18 íbúðir sem eru þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Þar af eru átta íbúðir á vegum Búmanna. Farið er eftir reglum um félagslegar leiguíbúðir við úthlutun þeirra. Markmið með úthlutun leiguíbúða er að sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn. sbr. 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Farið er eftir reglum um úthlutun félagslegra leiguíbúða hjá Sandgerðisbæ þegar verið er að meta leigurétt og úthlutun á félagslegum íbúðum í eigu Sandgerðisbæjar, bæði almennum félagslegum leiguíbúðum og leiguíbúðum sem sérstaklega eru skilgreindar fyrir aldraða. Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar er bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk umsækjanda og félagslegar aðstæður. Félagslegar aðstæður umsækjenda, sem uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk, skulu metnar sérstaklega samkvæmt matsreglum í viðauka við þessar reglur.

Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að leitast við að efla þjónustuþega til sjálfshjálpar og stuðla að því að viðkomandi geti búið sem lengst í heimahúsi, við sem eðlilegastar aðstæður. Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu getur verið aðstoð við heimilishald, aðstoð við persónulega umhirðu, veita félagslegan stuðning og aðstoð. Verið er að byggja 14 þjónustuíbúðir á miðbæjarsvæði á vegum bæjarfélagsins og Búmanna.

Samstarf er um Dvalarheimili aldraðra þ.e. Garðvang og Hlévang við Sveitarfélagið Garð, Reykjanesbæ og Vatnsleysustrandarhrepp. Miðhús er þjónustumiðstöð eldri borgara í Sandgerði og þar er boðið uppá fjölbreytt félagsstarf s.s. föndur, dans, leikfimi, bókasafn og fleira. Boðið er upp á heitan mat á vægu verði í hádeginu í mötuneytinu. Þjónustuíbúðir aldraðra eru staðsettar í Miðhúsum.

Sjá nánar:

Upplýsingar um félagslega heimaþjónustu og málefni aldraða

Reglur um félagslega heimaþjónustu í Sandgerði

Samantekt vinnuhóps um stefnumótun í málefnum aldraðra í Sandgerðisbæ og Sveitarfélaginu Garði